Um Írisi
Íris heiti ég og hef alltaf haft brennandi áhuga á að styðja fólk við að finna eigin styrk og nýta hann til að frekari vaxtar. Ég er gift, tveggja barna móðir og með fjölbreyttan bakgrunn sem sameinar tæknilega, fræðilega og mannlega nálgun. Ég er verkfræðingur að mennt, með kennsluréttindi og hef lokið ICF-vottuðu markþjálfanámi. Ég er drífandi en í senn hlý og einlæg í því sem ég geri og legg mikið upp úr því að skapa öruggt og uppbyggilegt rými þar sem fólk fær tækifæri til að vaxa, finna styrkleika sína og taka markviss skref í átt að sínum markmiðum.
Lengst af starfaði ég sem stjórnandi í upplýsingatækni innan bankageirans, en síðustu ár hef ég starfað sem stjórnendaráðgjafi. Eftir að hafa upplifað einkenni kulnunar í lok árs 2019 tók ég mér tíma í sjálfsskoðun og endurmat á stefnu minni og lífsmarkmiðum. Það leiddi mig inn á braut markþjálfunar – fyrst og fremst vildi ég prófa þetta fyrir sjálfa mig, en fljótlega áttaði ég mig á að þetta var eitthvað sem ég vildi miðla áfram. Með fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu, bæði sem stjórnandi og ráðgjafi, hjálpa ég einstaklingum og teymum að finna jafnvægi, styrkja sjálfstraust sitt og ná raunverulegum árangri.
Samhliða stjórnendaráðgjöf og markþjálfun er ég einnig listakona og hef málað yfir 100 abstrakt málverk sem ratað hafa á heimili bæði hérlendis og erlendis. Fyrir mér er sköpun góð leið til tjáningar sem og til að tengjast innri ró en jafnframt nýt ég samverustunda með fjölskyldunni og elska útiveru – fátt nærir sálina meira en íslensk náttúra.
Markþjálfun hjá mér er eins og góð fjallganga - hún hjálpar þér að sjá réttu leiðina, finna styrkinn til að halda áfram og treysta eigin getu til að ná þeim tindum sem þú sækist eftir.


